Djáknar á Íslandi

Frá 1995 (9 ár) þegar fyrstu djáknarnir voru vígðir eftir að námið var tekið upp við Guðfræðideildina hafa 8 af 20 söfnuðum í Reykjavíkurprófastsdæmum ráðið djákna til starfa. Aðeins eru starfandi djáknar í fjórum af þessum kirkjum í dag. Einn búin að segja upp, annar í 15% starfi og sá þriðji búin að starfa rétt rúma 13 mánuði.
Sömu sögu má segja úr öðrum prófastsdæmum, alls hafa 10 söfnuðir utan Reykjavíkurprófastdæmis vestra ráðið djákna og af þeim eru fimm með djákna í dag.
Meðal starfstími æskulýðsfulltrúa í söfnuðum í ensku biskupakirkjunni í Englandi er 18 mánuðir. Helsta ástæða þess að þeir hætta er að starfsumhverfið gerir ekki ráð fyrir þeim. Ég hef áhyggjur af að þetta sé einnig raunin með djáknanna í íslensku þjóðkirkjunni. (Upphaflega skrifað 31. mars 2004)

9 thoughts on “Djáknar á Íslandi”

  1. Við þetta mætti kannski bæta spurningunni: ,,Hvað er starfandi djákni” amk ef maður les uppkast að texta fyrir verðandi síðu Reykjavíkurprófastdæmis vestra en þar stendur: ,,Þá eru fimm djáknar starfandi innan prófastsdæmisins, einn á Landspítalanum við Hringbraut og tveir í Hjúkrunarheimilinu Sóltúni, og tveir í söfnuðum, í Áskirkju og Hallgrímskirkju. Að auki eru fjórir vígðir djáknar að störfum á svæði prófastsdæmisins, á Biskupsstofu, í Grensáskirkju og Háteigskirkju.”

  2. Það vantar Hrund í færsluna hjá mér. Hún er í hlutastarfi í Grensáskirkju og Háteigskirkju og sannarlega djákni. Mér skilst að biskup hafi talað um að aðeins einn djákni væri í fullu starfi í Reykjavíkurprófastsdæmum vestra. Enda tók ég þá ákvörðun að mæta í skyrtunni minni góðu til að taka af allan vafa um að ég hyggðist kjósa á héraðsfundi :-). En spurningin er: Hver er munur á djákna að störfum og starfandi djákna?

  3. Blessuð Ólöf, heildarfjöldi vígðra djákna er 24. Erfitt er að fullyrða hversu margir hafa lokið djáknanámi, enda er námið ekki réttindanám í sjálfu sér. Vígsla kirkjunnar er forsenda þess að fá að kalla sig djákna (í þjóðkirkjunni þ.e.).

  4. Athyglisverðir þankar. Það má líka benda á að ekki er getið fjölda þeirra sem hafa prestsvígslu og starfa í prófastsdæminu (við annað en prestsþjónustu). Í fljótu bragði man ég eftir a.m.k. sex sem eru í þeirri stöðu. Þau eru sennilega fleiri. Það hlýtur að vera jafnmikil ástæða til að telja þá aðila upp og djáknana.

  5. Svona, leyfum nú djáknunum að vera umræðuefnið. Greyin eru hvort eð er hornreka í kirkjunni. Dæmigert fyrir óvígðan guðfræðing að reyna að ræna sviðsljósinu 🙂 [setur upp plexíglerskjöld gegn grjótkasti] Auðvitað verður enginn djákni nema hljóta vígslu frekar en enginn er prestur fyrr en eftir vígslu. Svo mikið veit ég þó. Forsenda þess að hljóta vígslu er að hafa fengið vinnu (embætti). Ég var ritari fyrsta djákna sem ráðinn var að heilbrigðisstofnun hér á landi. Djáknanámið þótti framfaraskref, minnir mig. Hefur ásókn í námið verið meiri en eftirspurnin eftir starfskröftum og sérhæfingu þessa fólks? Hversu margir ætli hafi lokið djáknanámi frá HÍ? Ætli djákni að störfum, skv. hártogunum, sé ekki einhver sem hefur ekki lengur starfstitilinn “djákni” andspænis hinum sem eru í stöðugildi merkt “djákni”. Eitthvað svipað og “starfsfólk” og “fólk að störfum”. Ætli ég hætti að vera móðir þegar börnin mín flytja að heiman?

  6. Vandinn varðandi djáknanna er að við höfum ekkert eitt verkefni sem sker úr um hvort um djáknastarf sé að ræða. Þannig verður eina viðmiðunin sú hvort starfið hafi verið auglýst sem djáknastarf eður ei. Og sú viðmiðun er ekki algild. Þannig starfa ég að fræðslu í mínum söfnuði og sinni einhverri líknarþjónustu. Hins vegar er ég ekki starfandi djákni heldur djákni að störfum þar sem staðan mín var ekki auglýst og verksvið mitt er víðara en venja er með djákna. Ég sé hins vegar ekki muninn og líklega enginn annar heldur. Varðandi þanka Ólafar, þá blasir við að fæstir söfnuðir þjóðkirkjunnar hafa þann strúktur sem þarf til að annast starfsmannahald. Af þeim sökum hefur verið erfitt fyrir djákna að fóta sig og ending í starfi hefur verið stutt. Af sömu sökum hefur eftirspurnin verið lítil enda ekki til staðar nauðsynlegt umhverfi í söfnuðunum.

  7. Blessuð Ólöf, alltaf gaman að heyra frá þér. Vil endilega fá að stinga því að hér aðmér hefur hingað til hvorki liðið sem ,,greyið djákninn”, né þótt ég vera hornreka hvað stöðu mína innan íslensku þjóðkirkjunnar varðar. Ég skil semsagt ekki alveg hvað þú ert að fara. Rétt er að þjónusta djákna í kirkjunni er barnungt fyrirbæri eins og þér var örugglega kunnugt áður en þú last pistil minn á annálnum mínum hér um daginn! Og rétt er líka að við erum öll mismikil grey og mis hornreka á stundum, en ég held að það tengist ekki ákveðinni starfstétt umfram aðra! Já og takk öllsömul fyrir þessa umræðu, hún minnti mig á það að ég á eftir að setja pistilinn minn um þetta á annál Djáknafélagsins.

Comments are closed.