Meira af tillögum Mannréttindaráðs

Það er jákvætt að sjá lagfærðar tillögur Mannréttindaráðs sem voru kynntar í byrjun nóvember, en þar hefur verið tekið tillit til mjög margra ef ekki allra málefnalegra ábendinga sem fram komu vegna upphaflegu tillagnanna, sér í lagi varðandi framsetningu og orðalag.

Þannig hefur verið dregið úr sértæku orðalagi í tillögunum, klaufalegu orðalagi um fagaðila hefur verið eytt og gerð betri grein fyrir hvernig nálgast skal sálræn áföll. Nýjar tillögur sína einnig betri skilning á samspili kirkju, foreldra og skóla þegar kemur að fermingarfræðslu en hinar fyrri.

Reyndar er túlkunaratriði hvernig samspil frístundaheimilin geta haft við tómstundastarf sem ekki er á vettvangi borgarinnar utan skólatíma, þ.e. eftir að skólatíma lýkur og vistun tekur við. Ég á reyndar von á að það verði túlkað fremur þröngt víðast hvar.

Í raun er fátt um þetta að segja annað en að ég tel að Mannréttindaráð hafi gert vel í endurskoðun sinni, náð að útskýra áherslur og hugmyndir sínar betur en í fyrra plaggi og er það vel. En ég verð þó að viðurkenna að ég hnaut um þessa setningu hér:

Þess verði gætt við allar heimsóknir til og frá grunnskóla vegna fræðslu um trú og lífsskoðanir að nemendur fylgist með en séu ekki þátttakendur í helgisiðum og athöfnum.

Nú skil ég vel að hlutverk skólans er ekki að boða trú, en hins vegar finnst mér óþarfi að passa upp á það sérstaklega að börn biðji ekki eða taki þátt í helgihaldi sem þeim er tamt, ef að slíkt helgihald er kynnt fyrir þeim á forsendum skólans. En þetta er svo sem ekki stórmál.

Heilt yfir litið hefur Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar tekist að halda stillingu sinni í erfiðu máli, lagað það sem miður fór í upphafi og útbúið plagg sem er gagnlegt og vandað þegar ræða á samskipti skóla, trúar- og lífskoðunarfélaga.

Það er vonandi að okkur sem e.t.v. teljum að ástæða sé til meira samstarfs en minna, hættum árásum og upphrópunum og nálgumst nýjar hugmyndir ráðsins af virðingu og tökum þátt í að gera skólasamfélagið að vettvangi þar sem allir mega njóta sín á eigin forsendum, burtséð frá trúar- og/eða lífskoðunum.

Vísir – Ný útgáfa af tillögum mannréttindaráðs.

6 thoughts on “Meira af tillögum Mannréttindaráðs”

  1. Því meira sem ég velti þessu máli fyrir mér, þeim mun meira efast ég um að Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar eigi eitthvað um þetta mál að fjalla!

  2. Það er vonandi að okkur sem e.t.v. teljum að ástæða sé til meira samstarfs en minna, hættum árásum og upphrópunum…

    Þú ert ótrúlega bjartsýnn ef þú telur þessa von eiga einhvern möguleika á að rætast. Ég var nú að heyra það á kirkjuþingi að það stæði til að koma í veg fyrir kristinfræði í skólunum og að markmiðið væri að valda algjöru “siðrofi” á milli kirkjunnar og þjóðarinnar.

  3. Veistu Hjalti að ég held að ég sé reyndar hóflega bjartsýn hvað varðar þessa von. Mér sýnist að það sé margt í gangi hjá kirkjunnar til að bregðast við hugmyndum Mannréttindaráðs á jákvæðan hátt, þó það fari ekki jafnhátt og upphrópanirnar og árásirnar. Ég ræddi í októberlok við nokkra Gídeonmenn sem hafa komið að því undanfarin ár að aðlaga dreifingu Nýja Testamentanna að breyttum hugmyndum um aðkomu í skólum.

    Ég hlustaði á úrvals prédikun Jóns Dalbú í Hallgrímskirkju nú í lok október, þar sem hann lagði áherslu á samráð og virðingu í samskiptum við skólayfirvöld og mannréttindaráð.

    Það eru meira en 7 ár síðan að sóknarprestur Grensáskirkju tók þá meðvituðu ákvörðun að færa alla fermingarfræðslu úr skólum hverfisins, án þess að til staðar væri neinn þrýstingur á slíkt. Ef eitthvað var, þá var þrýstingurinn á hinn veginn.

    Ég er þess fullviss að í kirkjunni séu ótalmargir sem hafa skilning á og geta tekið undir meginlínur Mannréttindaráðs, en hafa kosið að halda sig til hlés til að forðast innanhúsdeilur og leiðindi. Af þeim sökum hefur hávær og framagjarn minnihluti fengið að einoka umræðuna og gefið enn á ný mynd af kirkjunni sem sjálfhverfri meirihlutastofnun sem skeytir engu um umhverfi sitt.

  4. Jæja, ætli ég voni þá ekki líka, voni að þetta sé rétt hjá þér. En það er erfitt að trúa á tilvist einhvers “þöguls minnihluta” í ríkiskirkjunni á meðan nánast það eina sem heyrist frá kirkjunnar mönnum er frá þessum “háværa minnihluta”.

  5. Jæja, í dag birtist grein frá Erni Bárði í Fréttablaðinu þar sem hann segir að Reynir vantrúarformaður vilji koma allri umræðu um trúmál úr skólum og landinu öllu. Og aðrir prestar lofa hann á Facebook.

    Ég er farinn að sannfærast um að þú sért í minnihluta Halldór.

  6. Þakka þér kærlega, Halldór, fyrir ágætan pistil. Það hlýtur að vera dálítið einmanalegt að vera eini kirkjumaðurinn sem þorir að gangast við þessum súbversív og hættulegu viðhorfum. Ég er, eins og Hjalti, minna en hóflega bjartsýn á að þetta muni nokkru sinni komast upp úr skotgröfunum, og flestir foreldrar sem hafa reynt að gagnrýna aðkomu kirkjunnar að skólum undanfarin ár(bæði við skólastjórnendur og kirkjuna) hafa nú þegar áttað sig á því að sú gagnrýni skilar engu og að yfirlýstur samræðuvilji er vilji til að útskýra fyrir okkur að við höfum rangt fyrir okkur og vitum EKKI betur en kirkjan hvað er börnum okkar hollast. Nú fagna ég því fyrst og fremst að fá von bráðar handfasta reglugerð til að vísa til þegar ég þarf að kvarta. Ásókn kirkjunnar í skóla- og leikskólarýmið hefur ekki verið blásin af og ljóst að þar mun allt verða reynt til að halda sínu. Enda kannski vonlítið um að fólk sem finnst það ekki vera að gera neitt af sér sjái ástæðu til að hætta því 🙂 Haltu endilega áfram að skrifa og íhuga um þessi mál!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.