Júdasarbréf

Þegar ég les Júdasarbréf rifjast upp fyrir mér þegar ég tók kúrs í “Organizational Behavior” sem er kenndur sem hluti MBA námsins við Capital University. Kennslustundin fjallaði um hvers kyns “borderline” hegðun og narcissisma. Kennarinn listaði upp nokkur mismunandi einkenni slíks atferlis og spurði hversu mörg okkar hefðu verið í verulegum samskiptum, nánu samstarfi eða unnið með a.m.k. einum einstaklingi sem sýndi fleiri en eitt þessara einkenna yfir lengri tíma. Flestir nemarnir í bekknum voru á skólabekk eftir að hafa verið út í atvinnulífinu um einhverra hríð, þannig að rúmlega helmingur bekkjarins rétti upp hönd. Kennarinn spurði aftur, hvað mörg ykkar hafa unnið með eða verið í samskiptum við fleiri en einn, og stór hluti handanna fór niður. Kennarinn spurði hvað mörg hefðu unnið með eða verið í samskiptum við fleiri en tvo og við vorum þrjú með höndina upprétta. Þegar kennarinn spurði um fleiri en þrjá, var ég sá eini sem hélt hendinni hátt á lofti.

Kennarinn leit á mig og spurði: “Hvar hefur þú eiginlega unnið?”

Vandamálið er ekki nýtt í kirkjunni, höfundur Júdasarbréfs hefur fengið nóg.

Þeir eru smánarblettur á kærleiksmáltíðum ykkar er þeir sitja að veislum með ykkur og háma í sig blygðunarlaust og hugsa aðeins um eigin hag. Þeir eru eins og vatnslaus ský sem rekast fyrir vindum, eins og tré sem bera ekki ávöxt að hausti, steindauð og rifin upp með rótum.

Ég sökkti mér niður í kenningar um “magtmennesker” fyrir tíu árum eftir að hafa brennt mig illa innan kirkjunnar. Ég man eftir að hafa lesið á þeim tíma í bók eftir norðmanninn Gunnar Elstad að stundum er ekki hægt að vera “nice.” Það eru til einstaklingar sem aðeins Guð getur bjargað. Að leyfa slíkri manneskju að leika lausum hala í kirkjulegu starfi eyðileggur líf margra. Þetta veit ritari Júdasarbréfs vel, hann hefur sjálfsagt séð til einstaklinga sem misnotuðu aðra kynferðislega, notuðu kirkjusamfélagið til að hóta þeim sem stóðu utan við. Hann hefur sjálfsagt séð í gegnum blekkingarnar og lygarnar sem siðleysingjarnir sem höfðu komið sér fyrir í söfnuðinum notuðu til að styrkja völd sín.

Þessir menn eru síkvartandi og kenna öðrum um örlög sín og lifa eftir girndum sínum. Munnur þeirra mælir ofstopaorð og þeir smjaðra fyrir öðrum, sér til ávinnings.

Júdasarbréf talar sterkt til mín, það minnir mig á að berjast gegn skrýmslunum sem koma sér fyrir í kirkjunni, nota völd og áhrif kirkjunnar til að tryggja sína eigin stöðu. Kallar mig til að berjast gegn þeim sem misnota og misbjóða fólki til að fullnægja eigin girndum.

Lesturinn ögrar mér samt líka, það er nefnilega alltaf sú hætta fyrir hendi að ég verði einn þeirra sem bréfið dæmir. Ég missi sjónar á því sem máli skiptir og verði sjálfsdýrkuninni að bráð.

Það er þess vegna sem að ég má aldrei gleyma að þrátt fyrir að okkur séu takmörk sett, þá getur Guð gerir okkur mögulegt að koma fram fyrir dýrð sína lýtalaus í fögnuði. Í því felst vonin, ekki að við getum gert allt gott og rétt, heldur að Guð megnar allt.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.