Jóhannesarguðspjall 8. kafli

Sagan um hórseku konuna er áhugavert vandamál Nýja testamentisfræðinga. Sagan er augljóslega (að þeirra sögn) viðbót við guðspjallið og máli sínu til stuðnings benda þeir á handrit þar sem sögunni er sleppt eða höfð annars staðar í guðspjallinu.

Þetta er stutt saga, minnir okkur á að ekkert okkar fylgir lögmálinu til fulls, við erum öll mistæk. Það er auðvelt að dæma aðra, en ef dómur annarra er jafnframt dómur yfir okkur, þá er málið flóknara. Það að við erum mistæk og missum marks gefur okkur samt ekki leyfi til að gefast upp. Við eigum að setja markið hátt, fara út í heiminn og leitast við að “syndga ekki framar.”

Jesús verður tíðrætt um dóminn. Það er samt ekki Jesús sem dæmir, dómurinn er okkar sjálfra. Við ein getum dæmt okkur úr leik. Sannleikurinn sem Jesús boðar, sannleikurinn sem gerir okkur frjáls er að meðtaka fagnaðarerindið. Þetta snýst ekki um eigin heiður, eigin árangur, eigin snilld, eigin hreinleika, eigin góðmennsku, þetta snýst um að treysta því að Guð er með, hefur komið í Jesús Kristi. Ef við treystum ekki, þá erum við föst í okkar eigin dómi, eina mælistikan sem við höfum er okkar eigin. Í því felst dómurinn, að við dæmum okkur sjálf fyrir að standa ekki undir væntingum, lifa ekki fullkomnu lífi.

Guðspjallamaðurinn bendir á það enn einu sinni. Jesús var frá upphafi. Hann er Guðs, hann er Guð.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.