Jóhannesarguðspjall 11. kafli

Mér finnst erfitt að glíma við kraftaverkasögur eins og Lasarus. Frásagnir sem ganga gegn öllu sem ég veit og skil um heiminn. Ég get vissulega nálgast hana út frá vangaveltum um hvort Lasarus hafi verið lærisveinninn sem Jesús elskaði. Einnig gæti ég velt upp hugmyndum um að Lasarus hafi verið aðalhöfundur Jóhannesarguðspjalls. Þannig gæti ég týnt mér í nútímavæddum akademískum pælingum um höfund guðspjallsins og sleppt upprisufrásögninni.

Það er mikilvægt þegar við skoðum gamla texta að leitast við að skilja hugarheiminn sem hann er skrifaður í. Þannig virðist upprisa Lasarusar ekki vera tiltökumál fyrir trúarleiðtogum þess tíma, þeir sjá bara enn einn hókus pókus farandprédikarann sem er til vandræða. Mörtu finnst reyndar að upprisan gæti verið vandamál vegna þess að lík Lasarusar “stinkar” enda búið að vera í gröfinni í næstum fjóra daga.

Ef þú trúir munt þú sjá dýrð Guðs,

er hugsanlega lykiltextinn í þessari kraftaverkafrásögn. Forsenda þess að sjá dýrð Guðs er fólgin í traustinu til Guðs. Þannig er trúin forsenda en ekki afleiðing kraftaverksins. Hér gæti einhver bent á að síðar í textanum er vísað til fólks sem hóf að trúa á Jesús vegna kraftaverksins og hugmyndum æðstuprestanna um að ef hókus pókus hegðun Jesús haldi áfram þá muni það leiða til tortímingar hefðbundinnar trúariðkanna. Ef til vill þarf annað ekki að útiloka hitt, en um leið virðist textinn gefa í skin að þeir sem hrifust fyrst og fremst af verkunum, hafi jafnframt tilkynnt Jesús til yfirvalda.

Önnur hlið á þessari frásögn er það sem virðist vera höfnun Jesús á hugmyndum um að trúin felist fyrst og fremst í fullvissunni um að fá “Sky in the Pie When You Die.” Þannig reynir Marta að útskýra upprisuna og Guðsríkið sem handanheimsveruleika til að sætast við bróðurmissinn. Ekki verður annað séð en að Jesús hafni slíkri nálgun, Guðsríkið er ekki einungis eftirdauðafyrirbæri, Guðsríkið er hér og nú, það brýst inn í hverdaginn sem virðist e.t.v. guðvana. Þannig verður upprisufrásagan af Lasarusi fyrst og fremst frásaga um að Guðsríkið er ekki handanheims, heldur mitt á meðal okkar. “Meistarinn er hér og vill finna þig” segir Marta við Maríu í textanum. Guð er ekki fjarri og býður eftir að við komum til hans. Guð er hér og finnur til með okkur í hversdeginum. Jesús grét segir í kaflanum, hann varð djúpt hrærður segir í 33. versinu.

Var Lasarus í alvöru dauður? Var lyktin jafn vond og Marta gefur í skin? Ég á erfitt með að höndla þessar spurningar. Ég hvíli hins vegar í trausti til Guðs sem er með í hversdeginum, Guði sem grætur, gleðst og lifir í dag.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.