Jóhannesarguðspjall 13. kafli

Höfundur Jóhannesarguðspjalls virðist taka ákveðna stöðu með Kalvín og útvalningarkenningu hans í 13. kaflanum (nú eða þá að Kalvín leiti í 13. kaflann til stuðnings sínum hugmyndum). Öllu og öllum er ákvörðuð stund og hlutverk. Frjáls vilji virðist ekki til í hlutverkum Júdasar, Jesús eða jafnvel Péturs. Höfundur Jóhannesarguðspjalls virðist sjá atburðarásina sem fyrirfram skrifað handrit af himnum. Þar sem hann situr og rifjar upp atburðina 50 árum áður, þá virðist allt passa saman. Jesús vissi, Júdas vissi og Pétur hefði átt að vita en var alltaf svolítið seinn.

Mér þykir vænt um hvernig fótþvottur Jesús snýr mannlegum hugmyndum um völd og áhrif á haus. Markmið okkar eigi ekki að snúast um að stjórna og ráða, heldur þjóna.

Ég hef velt mikið fyrir mér spurningum um stjórnun og þjónustu upp á síðkastið. Þannig er að menntun mín og reynsla virðist vera ógn við stjórnendur á þeim stöðum þar sem ég hef sótt um. Þannig hef ég mætt vantrú á það að ég geti hugsað mér að starfa í þjónustuhlutverki. Maður með menntun og reynslu eins og ég, hljóti að vilja ráða og stjórna. Þannig sé það alltaf. Þannig muni það að raska valdajafnvæginu að ráða mig, þar sem ég hljóti að grafa undan þeim sem séu við stjórnvölinn. Í sama dúr eru vangaveltur annarra af hverju ég gerist ekki prestur, fremur en að vera í einhvers konar “sekúndarý” illa skilgreindri þjónustustöðu.

Þegar þessi umræða kemur upp, þá fæ ég styrk af orðum Jesús um að þetta snúist fyrst og fremst um þjónustu. Það er með því að þjóna hvert öðru sem við gefum innsýn í Guðsríkið. Það er þegar við gefum okkur að og látum okkur aðra varða sem fagnaðarerindið brýst í gegn.

Hér er e.t.v. við hæfi að spyrja hvernig Lútherana með hugmyndir um a.m.k. hálf-frjálsan vilja, takist á við þá staðreynd að alla vega eitt af guðspjöllunum virðist ganga út frá útvalningarkenningunni. Því er að svara að ég trúi því að guðfræðikenningum sé ætlað að hjálpa okkur til að takast á við lífið eins og það blasir við okkur hverju sinni. Í slíkum kenningum er ekki falinn endanlegur sannleikur. Ég persónulega tel að útvalningarkenningin sé ekki hentug guðfræðikenning til að halda á lofti í vestrænu neyslusamfélagi, sér í lagi þegar henni er blandað saman á skaðlegan hátt við hugmyndir um himnaríki og helvíti (sem er ekki raunin í Jóhannesarguðspjalli). En ég get tekið undir að hún hafi sinn stað og tíma. Hugsanlega t.d. á skriftíma Jóhannesarguðspjalls.

5 thoughts on “Jóhannesarguðspjall 13. kafli”

  1. Því er að svara að ég trúi því að guðfræðikenningum sé ætlað að hjálpa okkur til að takast á við lífið eins og það blasir við okkur hverju sinni.

    Mér finnst þetta alveg ótrúlega merkilegt. Þannig að þegar þú kynnist trúarkenningu þá hugsarðu ekki: “Hvort ætli þessi kenning sé nær sannleikanum en sú sem ég tel vera rétt núna?“, heldur hugsarðu: “Hvort hjálpar þessi trúarkenning okkur að takast á við lífið betur?

  2. Ég sé ekki að önnur nálgunin útiloki hina. Ef Guð er raunverulega skapari heimsins og ef Guð elskar sköpun sína, þá er “sannleikurinn” um Guð jafnframt það sem hjálpar okkur að takast betur á við lífið.

  3. Halldór, ég sé ekki alveg hvernig þessi röksemdafærsla þín gengur upp:

    1. Guð skapaði heiminn.
    2. Guð elskar sköpun sína.
    -> Sannleikurinn um guð er jafnframt það sem hjálpar okkur að takast betur á við lífið.

    Og svo virðist þú halda að við ættum að velja trúarkenningar miðað við aðstæður hverju sinni, þú segir að útvalningarkenningin “sé ekki hentug guðfræðikenning til að halda á lofti í vestrænu neyslusamfélagi”. Er hún þá ekki kannski hentug í öðrum samfélögum?

  4. Fyrst og fremst lít ég á guðfræðikenningar sem tilraun okkar til að nálgast sannleikann um Guð. Guðfræðikenningar eru ekki og verða aldrei fullkomnar, ná aldrei að lýsa Guði til fulls. Líking eða kenning sem er hjálpleg í einu samhengi getur verið ónýt og vitagagnslaus í öðru samhengi.

    Ef ég trúi því að Guð hafi skapað heiminn, Guð sé skapari lífs og að Guð elski sköpun sína, þá hlýtur það að skipta máli þegar kemur að “sannleiksgildi” kenninga um Guð, hvort að kenningin birti Guð sem lætur sig varða um sköpun sína og leitist við að hjálpa okkur að takast á við lífið og lifa því.

    Þannig getur útvalningarkenningin hjálpað kúguðu samfélagi að glíma við þjáningu kúgunarinnar og rísa upp gegn kvölurunum, meðan að útvalningarkenning sem styður við valdahafa, getur leitt til kúgunar og órétts.

    Guðfræðikenningar í kristindómi eru að mínu viti ólíkar fræðikenningum í raunvísindum að að þeim er fyrst og fremst ætlað að hjálpa okkur að öðlast skilning á lifandi Guði, þeim er ekki ætlað að vera endanlegur sannleikur (sannleikshugtakið kemur fyrir í 19. kaflanum, ég er reyndar ekki búin að lesa hann í þessari lotu).

    Ég veit að hugsanlega eru margir kristnir og sumir guðfræðingar ósammála mér hér, enda tala ég fyrir mig en ekki aðra í þessum skrifum.

  5. Ef ég trúi því að Guð hafi skapað heiminn, Guð sé skapari lífs og að Guð elski sköpun sína, þá hlýtur það að skipta máli þegar kemur að “sannleiksgildi” kenninga um Guð, hvort að kenningin birti Guð sem lætur sig varða um sköpun sína og leitist við að hjálpa okkur að takast á við lífið og lifa því.

    Halldór, ég bara sé ekki hvernig niðurstaðan þín leiðir af hinu.

    1. Guð skapaði heiminn.
    2. Guð elskar sköpun sína
    ->Þær kenningar sem “hjálpa okkur að takast á við lífið og lifa því” eru frekar sannar.

    Er það efst á listanum (eða er það eina atriðið á listanum) hjá guðinum þínum að “hjálpa okkur að takast á við lífið og lifa því”?

    Ég kannski að missa af einhverjum liðum í röksemdafærslunum þínum, en mér finnst þetta bara hljóma rosalega óskhyggjulegt.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.