Jóhannesarguðspjall 20. kafli

Jæja, það er ekki nóg með að Pétur sé yfirleitt úti á þekju. Hann hleypur líka hægar en lærisveinninn sem Jesús elskaði. Hversu mikið “diss” er það að koma því að í mestseldu bók heims að félagi þinn hlaupi hægar en þú. Ef ég hef haft minnstu efasemdir um að lærisveinninn sem Jesús elskaði hafi komið að ritun Jóhannesarguðspjalls, þá eru þær efasemdir ekki lengur til staðar. Vá, þú ert að fara að tala um upprisu Jesú Krists, stærsta viðburð sögunnar og byrjar á því að tala um að þú hlaupir hraðar en félagi þinn Pétur. Djíí, ég verð að segja að þetta toppar eiginlega allt, nema kannski þá upprisuna sjálfa.

Höfundur Jóhannesarguðspjall segir Maríu hafa komið að gröfinni snemma morguns og séð að steininum hafi verið ýtt frá (ég mun ræða um mismun frásagna guðspjallanna síðar í yfirferð minni). Hún sækir lærisveinanna og kapphlaupið á sér stað. Þrátt fyrir að elskaði lærisveinninn hlaupi hraðar, þá er það Pétur sem veður inn í gröfina fyrstur til að sjá hvað er í gangi. Pétur virðist ekki skilja hvað er á seyði, svo sá elskaði kemur á eftir. Sá elskaði “sá og trúði.”

María mætir síðar um daginn Jesú án þess að þekkja hann, fyrr en hann ávarpar hana. Jesús birtist lærisveinum sínum að undanskyldum Tómasi þá um kvöldið en hverfur síðan í viku. Þegar hann birtist á ný viku síðar, þá leyfir hann Tómasi að snerta sár sín og minnir á að “sælir eru þeir sem hafa ekki séð og trúa þó.” Orð sem kallast skemmtilega á við orð elskaða lærisveininn sem “sá og trúði,” þó hann hafi ekki vitað hvað hann sá.

Frásaga Jóhannesarguðspjalls af Jesús upprisnum kallast á við túlkun Denys Arcand í Jesús frá Montreal. Þannig virðist e.t.v. upprisan felast í nýrri afstöðu lærisveinanna, fremur en í líkamlegri upprisu Jesú. Það að Jesús skuli hverfa í viku eftir upprisuna, það að María þekkti hann ekki í grasagarðinum og það hvernig Jesús er sagður geta birst í læstu herbergi virðist benda til “subjectivar” fremur en “objectivrar” upprisu líkt og Denys Arcand útskýrir svo vel í mynd sinni. Sem andsvar við því lesum við samt líka frásöguna af Tómasi sem fær að snerta sárin. Annað þarf enda svo sem ekki að útiloka hitt, eins og ég ræði hugsanlega nánar í umfjöllun minni um hin guðspjöllin.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.