1. Mósebók 10. kafli

Hér fáum við aðra ættartölu 1. Mósebókar. Þeir eru til sem nota þessar tölur til að reikna nákvæmlega út ártalið sem Guð skapaði heiminn. Þeir eru til sem halda að hér sé verið að lýsa með mikilli nákvæmni uppruna allra þjóða. Þeir hinir sömu eru á villigötum. Meðan ég man, það verður ekki heimsendir 21. maí 2011 og ástæðan er ekki að verkfræðingurinn hafi reiknað vitlaust, heldur einfaldlega sú að dæmið sem hann er að glíma við er ekki til.

Það eru reyndar nokkrir hlutir sem gripu athygli mína. Í 9. kaflanum er Nói sagður hafa verið akuryrkjumaður og það er ekki fyrr en tiltölulega neðarlega í ættartölunni að það nefndur er til sögunnar fyrsti veiðimaðurinn, Nimrod og jafnframt tekið fram að hann hafi verið fyrsti valdsmaðurinn á jörðinni. Þannig er gefið í skin að völd og veiðimennska fari á einhvern hátt saman. Þetta væri vert frekari skoðunar.

Þá þarf ekki að koma á óvart að afkomendur Kanaan hafi meðal annars komið sér fyrir í Sódómu og Gómorru. Meira um það síðar, en eitthvað segir mér að Kanaanítar/Kanverjar hafi ekki átt mikið upp á pallborðið hjá ritstjórum 1. Mósebókar.

7 thoughts on “1. Mósebók 10. kafli”

  1. Það væri nú erfitt að nota 10. kaflann í útreikningum þar sem það eru engar tölur í honum 😛

    En ég er forvitinn á að vita hvernig þú telur þessa menn lenda á villigötum. T.d. varðandi það að um sé að ræða lýsingu á uppruna allra þjóða (ég sleppi “með mikilli nákvæmni). Ég myndi segja að þeir séu að túlka þetta rétt (þetta er í raun og veru lýsing á uppruna þjóðanna) en þeir gera þau mistök að taka þetta trúanlega. Þessi skýring á uppruna þjóðanna er einfaldlega röng.

    Hinn möguleikinn væri að þeir séu ekki að túlka þetta rétt. Hvor mistökin gera þeir að þínu mati?

  2. Eftir innlegg mitt um mikilvægi þess að greina á milli mismunandi uppruna textans og nauðsyn þess að taka eftir blæbrigðamun milli prestlegu og J-heimildarinnar, þá tekst mér að lesa inn í textann eitthvað sem er ekki þar og pirra mig á því hvernig það sem er ekki þar er misnotað, sjá þó 11. kafla. Snillingurinn ég 🙂

  3. Misnotkunin á textanum að mínu mati felst í að líta framhjá inntaki textans sem er sameiginlegur uppruni þjóðanna (eða öllu heldur ættbálkanna) í frjósama hálfmánanum og einblína þess í stað á tölurnar (í næsta kafla) og draga út frá þeim áliktanir um aldur jarðar eða komandi heimsendi.

    Það er ekki misnotkun á textanum að líta svo á að ættartöflurnar séu að lýsa einstaklingum, þó ég telji að slíkur lestur sé á misskilningi byggður.

    Að mínu viti erum við hér fyrst og fremst með texta sem er skrifaður til að minna Ísraelsmenn á að þeir eru hluti af stærri heild. En þegar einstaklingsskilningurinn er notaður til að komast að hvers kyns niðurstöðum sem eiga sér engar forsendur í textanum þá er um misnotkun að ræða.

  4. Ég skil ekki hvað þú átt við með að þeir séu að líta fram hjá inntaki textans. Þetta eru goðsögur um upphaf heimsins, mannkyns og þjóðanna.

    Mér finnst tilraunir til að líta framhjá því og reyna að finna eitthvað annað sem “alvöru” merkingu textanna vera trúvarnartilburðir.

  5. Það er kannski ekki rétt af mér að tala um “inntak” og “merkingu” textans. Það sem mér finnst mikilvægasta spurningin er hvað ritstjórar textans eru að reyna að segja með birtingu hans og ekki síður hvaða viðbrögð textinn kallar á frá lesendum sínum.

  6. Hluti af því held ég að sé að koma með útskýringu á uppruna heimsins, mannsins og þjóðanna.

    Hérna er mín ágiskun á því hvað er í gangi (og þú mátt endilega leðrétta mig ef ég er úti að aka):

    Þú áttar þig réttilega á því að útksýringar þessara sagna á upphafi hlutanna eru ekki réttar. Þú vilt ekki sættast þig við það að svona “merkilegar” og áberandi sögur í biblíunni séu bara úreltar, og þá reynirðu að finna einhvern boðskap sem að nýtist þér eða þér líkar við. T.d. sýnist mér þú vera að leita að einhverju í átt til “bræðralagi manna” í ættartölunum (“minna Ísraelsmenn á að þeir eru hluti af stærri heild”).

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.