1. Mósebók 18. kafli

Sagan úr síðasta kafla er endurtekin hér. Hér er Guð reyndar, Guð kvöldsvalans, sá sem gengur um meðal fólksins síns, Guð J-hefðarinnar, Jahve. Jahve mætir að tjaldi Abrahams í fylgd tveggja manna, Abraham virðist þekkja hann og býr til veislu, biður Söru um að baka flatkökur, lætur slátra kálfi og býður upp á mjólk og skyr (skv. íslensku þýðingunni alla vega). Jahve vill ekki bara ræða við Abraham líkt og El áður, hann vill að Sara heyri einnig erindið. Nú, er það Sara sem hlær og meðan hlátur Abrahams í 17. kaflanum var vegna þess að hann efaðist um að 100 ára karlmenn gætu getið börn og níræð kona alið það, þá hlær Sara fyrst og fremst að tilhugsuninni að sofa hjá gamla karlinum.

Guð minnir á að Guði sé ekkert um megn og lofar að þegar hann komi að ári, muni þau hafa barn. Sara hræðist og mótmælir því að hún hafi hlegið, því svarar Jahve: “Víst hlóstu.” Hér er ekkert helgihald, enginn þörf fyrir hið prestslega, þetta er texti Jahve.

Frá Abraham og Söru halda síðan verurnar þrjár áleiðis til Sódómu til að sjá hvort borgin sé dæmd til glötunar. Abraham biður borgarinnar vægðar, enda geti “collateral damage” ekki verið ásættanlegt í augum Guðs. Ef einhver réttlátur finnist í borginni sé Guði ekki stætt á að eyða henni. Guð tekur mark á bæn Abrahams, eða segist gera það.