1. Mósebók 34. kafli

Það er framinn glæpur. Dinu, dóttur Jakobs er nauðgað og við lesum í kaflanum um viðbrögð fjölskyldu hennar og ekki síður tilraunir fjölskyldu ofbeldismannsins til að fela glæpinn. Umgjörðin er vel þekkt, við sjáum svona fréttir á hverjum degi. Afsakanir ofbeldismannanna eru enn í dag þær sömu og áður, hvort sem er í fjarlægum löndum eða á útihátið um verslunarmannahelgina. Við lesum um tilraunir vini og fjölskyldu ofbeldismannsins til að draga úr glæpnum. Hræðsla fjölskyldu þolandans, þess sem misþyrmt var, er líka þekkt. Við sjáum að Jakob hræðist að þau geti ekki lifað áfram á sama stað, þau verði hrakin af svæðinu ef ekki finnst sátt. Þannig kallast sagan á við sögur kvenna á Íslandi sem þurfa að flytja úr þorpinu vegna ofbeldismannsins sem alltaf er svo almennilegur við alla.

Bræður Dínu eru hins vegar ekki til í neina sátt, þeir vita sem er að sáttagerð mun þýða að systur þeirra verði fórnað fyrir friðinn. Þeir leggja því á ráðin um hefnd og sú hefnd er svo sannarlega ekki auga fyrir auga, tönn fyrir tönn. Nei, þeir eru sagðir hafa drepið alla karlmenn í þorpinu, hneppt konur og börn í þrældóm og rænt öllu sem var einhvers virði.

Þegar ég staldra við og velti fyrir mér hvers vegna þessi saga er sögð í 1. Mósebók og hvað hún segir mér um Guð, þá er það fyrst og fremst fjarvera Guðs úr þessum kafla sker í augun. Þetta er fyrsti kafli ritsins þar sem nafn Guðs, hvort sem er El eða Jahve er ekki nefnt.

Ekki einu sinni krafan um að allir karlar í borginni láti umskerast er tengd við Guð eða sáttmála Guðs við afkomendur Abrahams. Það er líka augljóst að umskurður er ekki fullnægjandi til þess að verða hluti þjóðar Guðs. Þeir bræður, Símeon og Leví virðast ekki finna til neinnar samkenndar með þeim sem umskornir eru.
Sagan er þarna sem áminning um það að nauðgun er ógeðslegur glæpur sem kallar á aðgerðir og viðbrögð, hefur áhrif á allt samfélagið, bæði þá sem standa að ofbeldismanninum og þá sem þekkja til þolandans. Nauðgun er ekki einkamál heldur glæpur samfélagsins alls.