1. Mósebók 45. kafli

Þá kemur að því. Jósef missir andlitið. Hann passar sig á að senda hirðmenn sína úr herberginu, enda mikilvægt að þjónustufólkið sjái ekki veikleikamerki. Það kemur þó fyrir ekki. Grátur Jósefs heyrist um allt Egyptaland. Bræðurnir vita skiljanlega ekki hvernig þeir eiga að bregðast við, en þegar Jósef hefur sannfært þá um að allt þetta sé hluti af plani Guðs, þá róast þeir.

Faraó gleðst með Jósef og býður fjölskyldu hans að setjast að í Egyptalandi og njóta alls þess besta sem Egyptaland hefur upp á að bjóða. Bræðurnir halda heim hlaðnir af gjöfum til að sækja fjölskyldur sínar og föður.
Jakob gefur sér tíma til að meðtaka þessar gleðifréttir, að uppáhaldsbarnið sé á lífi en þegar hann hefur áttað sig á merkingu orðanna, ákveður hann að halda til Egyptalands og sjá Jósef.