1. Mósebók 46. kafli

Hópurinn heldur af stað til móts við nýja tíma í nýju landi. Það fara ekki allir afkomendur Jakobs í ferðina, eins og upptalningin í þessum kafla ber með sér.

Jósef leggur á ráðin um að ættingjar hans geti áfram stundað hjarðmennsku í nýjum heimkynnum, en leggur að þeim að tala frekar um kvikfjárrækt, enda hafi Egyptar andstyggð á hjarðmönnum. Líkt og í fyrri kafla er talað um að afkomendur Jakobs muni fá að búa í Gósenlandi.

Það er áhugavert að staldra um stund við andúðina sem Egyptar eru sagðir hafa á hjarðmönnum og því sé pólítískt betra að tala um að vera í kvikfjárrækt. Þetta kallar á margvíslegar hugsanir. Þannig leiði ég hugann annars vegar að rómafólkinu í Evrópu, farandverkafólki og aðbúnaði þess. Ég hugsa um aðstæður Portúgala og Kínverja á Kárahnjúkum, hugmyndum um að senda útlendinga úr landi á Íslandi/Danmörku/Þýskalandi/Austurríki/Finnlandi nú eða hvar sem er, þegar ekki er lengur rými á vinnumarkaði. Ég hugsa um hvernig okkur tekst að trúa því að einhverjir séu annars flokks, séu minna virði, séu ómerkilegri en við.

Á algjörlega öðrum nótum þá hugsa ég um ferilskrárfræði, hvernig vel menntað fólk sveigir og beygir ferilskrár og námsferil til að líta út örlitlu betur. Hvernig stutt námskeið verður að sérmenntun. Erfiðleikar við að finna sig verður að þverfaglegu rannsóknarnámi.