Jeremía 7. kafli

Zion guðfræði musterisins, um fyrirheitnu þjóðina sem hefur byggt sér hús þar sem Guð býr, musterið í Jerúsalem, þar sem Guð býr sama hvað. Hugmynd sem við sjáum t.d. í áætlunum Davíðs og væntingum um ævarandi konungsdóm í Annarri Samúelsbók 7. kafla og bregður víða fyrir hjá fyrsta Jesaja, fær harkalega útreið hér hjá Jeremía.

Treystið ekki lygaræðum þegar sagt er: “Þetta er musteri Drottins, musteri Drottins, musteri Drottins.”

Trúarskilningur Jeremía byggir ekki á húsinu glæsilega í Jerúsalem, heldur á afstöðunni til Torah, til lögmálsins. Guð býr þar sem aðkomumenn búa við frelsi, munaðarleysingjar og ekkjur hafa réttindi, þar sem saklausu blóði er ekki úthellt. Guð er þar sem sanngirni ríkir, á slíkum stað finnur Guð sér bústað.

Það að byggja hallir og skrauthýsi þar sem gengið er fram fyrir Guð, eftir að hafa svikið og prettað náungann er ekki þóknanlegt fyrir Guði. Slíkt hús er ræningjabæli. Fórnarþjónustan í musterinu er hluti af þessum blekkingarleik að mati Jeremía. Guð kallar ekki eftir fórnargjöfum heldur hlýðni við lögmálið segir spámaðurinn.

Lögmálið sem Jeremía vísar til og við sjáum í skrifum Amosar, er ekki lögmál sem festist í að fylgja í blindni, heldur lögmál sem krefst réttar fyrir hin veika, smáa og jaðarsetta. Lögmálið knýr á um rétt fyrir ekkjur og munaðarlausa, fátæka og útlendinga, það snýst ekki um hárgreiðslu, föt eða fórnaraðferðir, alls ekki.