Meira en trúfélag…

Það hefur verið borið á því í umræðunni um biskupskjör og reyndar í allri umfjöllun um þjóðkirkjuna, hugmyndin um að þjóðkirkjan sé meira en trúfélag. Þessi hugmynd felur í sér að trúfélag sé einhvers konar endanlegur veruleiki og utan trúar sé annar heimur, væntanlega í huga fólks heimurinn sem við lifum í.

Hins vegar fylgir oft orðunum um að kirkjan sé meira en trúfélag, væntingar um að kirkjan finni sér farveg í þessum utantrúarheimi. Reyndar virðist ætlast til að þessi farvegur sé á sviði menningar, þjóðarstolts og einhvers konar “vertu góð við aðra án þess að ætlast til að við séum það.”

Það er sjaldan sem við sjáum að væntingarnar um kirkjuna sem meira en trúfélag, felist í kröfunni um að barist sé á öllum vígstöðvum fyrir rétti hinna fátæku, barna eða einfeldninga. Nei, vissulega á kirkjan að vera góð við þetta fólk en síst af öllu berjast fyrir rétti þeirra, það er nefnilega pólítík og ríkiskirkja á aldrei að vera þar.

Það er margt að þessum hugsunum. Fyrir það fyrsta er kristin trú ekki eitthvað skilgreint hugarástand utan við hið daglega líf. Þetta sést skýrt í lífi og starfi Jesú Krists. Þá er einnig skýrt í lífi og starfi Krists að það er ekki nóg að “vera bara svona góður.” Okkur ber að kalla eftir réttlæti og berjast fyrir ekkjuna og fátæklinginn. Síðast en ekki síst þá hikaði Kristur ekki við að gagnrýna sjálfhverfan menningarheim sinn og benda á hræsnina í þjóðarstoltinu og undirgefninni við valdastéttir.

Kirkja sem trúfélag hefur fjögur meginhlutverk, boðun, fræðslu, helgihald og samfélag (sjá t.d. P 2.42). Innan hvers þáttar rúmast lífið allt. Boðun er þannig ekki sérgreint verkefni heldur endurspeglast í atferli lífsins alls. Fræðslan er á sama hátt köllun til að nálgast lífið allt með opnum huga. Helgihaldið er köllun til auðmýktar og skilnings á að við erum ekki miðpunktur veraldarinnar. Loks kallar samfélagsþátturinn okkur til ábyrgðar gagnvart hvort öðru, alltaf alstaðar.

Það “kirkjulíki” sem við höfum leitast við að skapa hér á Íslandi, færir boðunina frá daglegu atferli okkur í hendur sérmenntaðra “góðmenna”. Fræðslan hefur sömuleiðis orðið afstöðuleysinu að bráð. Helgihaldið hefur glatað merkingu sinni og samfélagsþátturinn er í besta falli bundinn við kaffibolla eftir messu, og stundum ekki einu sinni það.

Þegar “kirkjusérfræðingarnir” sjá tilgangsleysið í störfum sínum er hlaupið af stað í leit að merkingu. Menningararfurinn, sálgæsluhlutverkið, tungan, hefðin og hver veit hvað kemur næst. Kirkjan jaðarsetur sig í leit að merkingu, vegna þess að við höfum gleymt hver við erum.

Það er vert að velta fyrir sér hvort að áherslan í akademísku námi “kirkjusérfræðinganna” leiði til þess að þeir tapa á stundum “barnslegum” hugmyndum um vináttuna við Jesús og finni henni ekki nýjan farveg í þroskuðum trúarskilningi, enda er enginn áhersla lögð í kirkjunni á að vera vettvangur fyrir trúarþroska. Annað tveggja höngum við á “barnslegum” hugmyndum um Guð (sem er annað en að nálgast Guð sem barn) sem leiða á stundum í ógöngur, eða við glötum hugmyndinni um skapara, frelsara og lausnara. Þetta er hugsanlega ein ástæða þess að tilgangsleysið verður jafn áberandi í störfum “kirkjusérfræðinganna” og raun ber vitni.

Trúarþroskaskorturinn stafar e.t.v. að hluta af þátttökustefnu þjóðkirkjunnar. Það er sláandi í þjóðkirkjunni hversu þátttakan er lítils verð. Þjóðkirkjan hefur byggt upp starf sitt sem leikhús sem áhorfendum er ætlað að njóta meðan á því stendur og svo ekkert meir. Þegar ríkið dregur úr styrkveitingum til sýningarinnar, virðist sjálfhætt í hugum margra. Innan kirkjunnar virðist ekki einu sinni gert ráð fyrir að áhorfendurnir gætu viljað taka þátt í kostnaðinum, það virðist óhugsandi. Sýningin er nefnilega ekki það góð, eða hvað?

Hvernig væri að vakna upp. Kenna hvort öðru, gera sakramentin og þátttöku miðlæg í starfi okkar. Kalla fólk út í samfélagið til að breyta því. Bjóða fólki að taka þátt í lífi alvöru trúfélags, t.d. með samskotum og samfélagsverkefnum. Bjóða fólki leið til aukins þroska og nýs lífs.

Hvernig væri að kirkjan hætti að líta á hlutverk sitt að halda í hefðir, en tæki þátt í að móta framtíðina í þessu landi. Hvernig væri að biskupskandídatarnir hættu að tala um sjálfa sig og byrjuðu á því að tala um Jesús Krists sem er og var og verður um eilífð. Hvernig væri að hugsa í framtíð en ekki fortíð. Tala um ríki Guðs, en ekki ríkiskassann.