Jákvæð þróun

Þegar ég renndi yfir vefmiðla í morgun rak ég augun í myndatexta á mbl.is sem stakk mig svolítið

Í gær fór fram kirkjuþing unga fólksins. Hlutverk þess er að ræða stöðu og hlutverk ungs fólks í þjóðkirkjunni.

Blessunarlega sýnist mér að þetta sé rangt, sér í lagi þegar ég skoða málaskrá kirkjuþings unga fólksins. Hlutverk þess er nefnilega að fjalla um málefni kirkjunnar frá sjónarhóli ungs fólks, sem er í grundvallaratriðum ólíkt því að ræða um stöðu og hlutverk ungs fólks í þjóðkirkjunni.

Vissulega var umræðan á kirkjuþingi unga fólksins á árinu 2011, fremur sjálfhverf og einblíndi á fremur þröngan kirkjuveruleika, en nú í ár hefur það breyst töluvert.

Þannig fjalla tillögur þingsins að þessu sinni um einelti á vettvangi kirkjunnar sem er ekki einvörðungu tengt ungu fólki, þá er tillaga um vandaðri skimun starfsfólks og mikilvægi eftirfylgdar við siðareglur sem er ekki bundið við ungt fólk og tillaga um leiðréttingu á niðurskurði sóknargjalda. Tillaga var lögð fram um afstöðu kirkjunnar til innflytjendamála og önnur um umhverfisstefnu.

Þessi þróun er frábær og mikilvægt að tillaga um að styrkja innviði kirkjuþings unga fólksins verði tekin upp og fundnar formlegar leiðir til að gefa vinnu unga fólksins meira vægi á vettvangi kirkjunnar sem heildar.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.