Jeremía 34. kafli

Jeremía gefur Sedekía fyrirheiti um að þrátt fyrir herleiðinguna muni hann halda lífi og deyja í friði. En… en… þá koma svikin.

Sedekía ákveður að vanvirða boð Drottins um sakauppgjör og frelsun þræla af ætt hebrea. Þrátt fyrir vilyrði um að banna þrælahald landa sinna, þá gekk Sedekía á bak orða sinna. Með því sveik hann að mati Jeremía/Drottins orð Fimmbókarritsins um lausn úr ánauð á sjöunda ári (sjá 5M 15.12).

Svik Sedekía og Ísraelsmanna sem felast í að hneppa í þrældóm þá sem með réttu ættu að hafa frelsi, leiða til þess að Drottinn kallar óvininn til leiks. Dómur Drottins skv. Jeremía verður harður. Lausn Sedekía á þrælum var enginn lausn, á sama hátt segir…

Ég boða yður lausn, segir Drottinn, lausn með sverði, drepsótt og hungri. Ég geri yður skelfilega í augum allra konungsríkja jarðar.

Hér bregður fyrir mynd af Guði sem oft er tengd við Guð Gamla Testamentisins, mynd af ofbeldisfullum reiðum Guði, sem veldur ógn og dauða. Spádómar Jeremía hafa svo sem birt þessa mynd áður í ritinu, en eins og áður er ofbeldismyndin, mynd sem er dreginn upp gagnvart kúgurunum. Hin ofbeldisfulli reiði Guð er sá Guð sem bregst við ofbeldi ráðandi stéttar.

Við sem erum hluti forréttindafólksins, við 5% mannkyns sem eigum allt, eigum erfitt með að skilja ofbeldisfullt uppgjör við þá sem eiga allt og ráða. Slíkur Guð getur ekki verið góður að okkar mati, en fyrir þrælana sem hafa mátt þola svipur og sverð, drepsótt og hungur, sjá kannski í orðunum einhvers konar réttlæti í heimi sem þekkir hvorki lýðræði, samtalsstjórnmál né málþófsumræður.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.