Daníelsbók 1. kafli

Þegar við lesum texta, nálgumst við þá alltaf með einhverjum fyrirframgefnum forsendum. Þannig hefur fyrri lestur eða túlkun einhvers annars á textanum áhrif, nú eða við tengjum einstök orð við minningu eða upplifun. Við erum ekki tómt eða autt blað og textinn sem við lesum er heldur ekki ósnertur áður en við lesum hann.

Sagan af Daníel og sér í lagi nöfn félaga hans Hananja Sadrak, Mísael Mesak og Asarja Abed-Negó, kalla fram sérstaka minningu hjá mér, þannig að um leið og ég sé nafnið Asarja Abed-Negó, þá brosi ég og það rifjast upp ein af þessum stórfurðulegu minningum, sem maður er ekki alltaf viss um að sé sönn.

Eitt sumarið, fyrir langa löngu, sem ég vann í sumarbúðum, mætti eina vikuna stuðningsfulltrúi með fjölfötluðum dreng og stóð sig ágætlega í að hjálpa drengnum að taka þátt í dagskránni. Þegar leið á vikuna kom í ljós að það yrðu forföll í starfsmannahópnum vikuna á eftir svo stuðningsfulltrúanum var boðin vinna. Hann var mjög spenntur, enda sumarbúðirnar kristilegar og stuðningsfulltrúinn virkur í einhverjum af kristnu söfnuðunum á Íslandi. Hann sá þannig tækifæri til að starfa að útbreiðslu guðsríkisins með okkur hinum hálfheilögu (eða hálfheiðnu) þjóðkirkjukristnu starfsmönnunum.

Þegar svo kom að því að skipuleggja dagskrá vikunnar kom í hlut stuðningsfulltrúans að segja söguna af Daníel í ljónagryfjunni á kvöldvöku (sem af einhverjum ástæðum var í fræðsluefni þessa sumars). Þessi vika var svo sem ekkert minnistæðari eða öðruvísi en flestar hinna nær 200 vikna sem ég hef unnið í sumarbúðum, nema þegar kom að frásögunni um Daníel.

Kvöldvakan var hefðbundin, leikrit og framhaldssaga og söngur, áður en kom að Biblíusögunni. Ég man ekki hvort Frelsarinn góði eða Þessi gamla góða saga var sungin áður en stuðningsfulltrúinn stóð upp, enda skiptir það svo sem ekki öllu máli. En hugleiðingin var minnisstæð.

Þarna stóð þessi annars dagfarsprúði maður (að ég held) veifandi Biblíunni í annarri hendi og hrópaði í sífellu

„Hananja Sadrak, Mísael Mesak, Abed-Negó, þeir treystu á Guð. Þeir vissu hvað var rétt. Vitið þið hvað á að gera? Við eigum að vera eins og Abed-Negó, vinur Daníels, við eigum að treysta Guði. Líta til Abed-Negó, treysta, hlýða, eins og Hananja Sadrak, Mísael Mesak, Abed-Negó, Hananja Sadrak, Mísael Mesak, Abed-Negó, Hananja Sadrak, Mísael Mesak, Abed-Negó, Hananja Sadrak, Mísael Mesak, Abed-Negó, ….

Stuðningsfulltrúinn varð sífellt æstari og endurtók nöfnin hraðar og hraðar, skaut inn orðum eins og vinátta, hlýðni, traust og Guð. Allt í einu stoppaði hann og það var þögn í smástund. Ekkert barnanna sagði neitt, athyglin hafði verið óskipt enda tilburðirnir slíkir að fæst höfðum við séð annað eins.

Skyndilega stóð eitt barnanna upp og byrjaði að klappa, hin börnin fylgdu í kjölfarið. Fagnaðarlætin voru mikil, enda höfðu þau (vonandi) sjaldan séð annað eins. Hvort þau héldu að um hefði verið að ræða nýstárlegt rapp á útlensku eða eitthvað annað skulum við láta liggja á milli hluta.

Þegar við svo gengum af kvöldvökunni, gekk einn samstarfsmaðurinn til mín og sagði við mig:

Elli, hvað var þetta asa aba ne sem hann var að segja við okkur?

Kannski gerðist þetta aldrei, mig dreymdi þessa uppákomu eða það er að slá saman í minningum mínum. En alltaf þegar ég skoða Daníelsbók sé ég fyrir mér ungan stuðningsfulltrúa hrópandi „Abed-Negó“ í sífellu.

Verkefnið framundan hér á iSpeculate er að reyna að losna undan þessari minningu og skoða Daníelsbók og innihald hennar. Þessi fyrsti kafli tímasetur viðburði bókarinnar í tengslum við herleiðinguna.

Þeir vinir og félagar Daníel Beltsasar, Hananja Sadrak, Mísael Mesak og Asarja Abed-Negó eru komnir við hirð Babýlóníukonungs og bera af öðrum mönnum við hirðina. Okkur er gerð grein fyrir að vilji þeirra til að fylgja lögmáli gyðinga getur komið þeim í bobba gagnvart konungi. Með öðrum orðum, þetta er saga um að gleyma ekki uppruna sínum og halda fast í trúarrætur sínar, þrátt fyrir veraldlega velgengni (ef skiptingin trúarleg/veraldleg hefði haft einhverja merkingu á þessum tíma).

Daníelsbók er af flestum talin vera skrifuð 2-3 öldum fyrir Krist, í kjölfar þess að Grikkir fóru að gera sig gildandi fyrir botni Miðjarðarhafs. Hlutverk sögunnar sé að byggja upp sjálfsmynd gyðingþjóðar undir valdi erlends ríkis. Þannig er Nebúkdanesar vísun til stjórnvalda herveldisins sem kúgaði gyðinga á þeim tíma sem sagan er skrifuð, fremur en tilraun til að lýsa einhverjum einstökum viðburðum 300 árum áður.

Daníelsbók er ætlað að lýsa veruleika og hetjuskap forfeðranna sem gefast ekki upp þó á móti blási. Ekki ósvipað og hlutverk endurreisnar keltneskra hefða í lok 19. og upphafi 20. aldar, nú eða bókmennta- og söguskilnings Jónasar frá Hriflu. Þessi aðferð kúgaðrar þjóðar til að endurskrifa söguna til að styrkja sjálfsvitund í krísu eða yfirvalda til að skapa ímynd til að styrkja eigin málstað gegn þegnum sínum er ekki ný. Það er ekki að ástæðulausu að sum stjórnvöld telja að menning eigi ekki heima með menntun og þekkingu, heldur sé fyrst og fremst stjórntæki fyrir yfirvöld og eigi af þeim sökum heima í Forsætisráðuneytinu.

One thought on “Daníelsbók 1. kafli”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.