Hálfprestar

Nú ætla ég mér alls ekki að mæla gegn hagræðingu innan kirkjunnar og tilraunum til að fara betur með þær bjargir sem kirkjan fær í gegnum ríkið. Hins vegar velti ég fyrir mér þeirri þróun að fjölga hlutastarfsprestum og hvers konar embættisskilningur liggur að baki hugmyndinni um hálf- og hlutapresta. 

Þannig hefur því löngum verið haldið á lofti í umræðum um vinnuálag og laun í stéttinni að prestar séu alltaf við, alltaf til staðar þegar á þarf að halda. Launin felist í ótakmarkaðri eða öllu heldur óskilgreindri vinnuskyldu. Þegar við höfum orðið fullt af hálfprestum, hvaða merkingu hefur slík umræða?

Ég velti líka fyrir mér hvers konar starfsmannastefna felst í því að bjóða einstaklingum með langt háskólanám upp á 50% sérfræðistöður á landsbyggðinni þar sem e.t.v. er lítið um önnur störf með sömu menntunarkröfum til að dekka hin 50%. Í þeim tilfellum þar sem um maka er að ræða (sér í lagi með menntun), þá felst í starfinu 1/4 vinna fyrir fjölskyldu í litlu þorpi á landsbyggðinni eða í sveit, þar sem fátt er um önnur tækifæri. Á meðan það er offramboð af guðfræðingum, þá er auðvitað hugsanlegt að einhverjir finni sig kallaða í þessi störf, en væntanlega á þá vígslulosti oftast nær (ekki kannski alltaf) hlut í máli.

Ég hef áður nefnt hér að framtíðin liggi líklega að einhverju leiti í tvíþættri köllun presta (bivocation) og e.t.v. erum við með hálfprestunum að sjá þá þróun í verki. Enda var tvíþætt köllun veruleiki fyrri alda, hvort sem litið er til Páls postula eða íslenskra sveitapresta á 19. öld. Líklega var ástandið á 20. öldinni á Íslandi einhvers konar flökt eða frávik, undarlegt tímabils alsnægtanna þar sem meira að segja prestar gátu sinnt köllun sinni í fullu starfi á fínum launum.

Þróun hálfpresta ætti að leiða til nýs embættisskilnings, kallar eftir vandaðri starfsmannastefnu og þarfnast vandaðrar guðfræði um köllun til þjónustu kirkjunnar. Offramboð guðfræðinga í leit að vígslu gæti seinkað þeirri vinnu sem þarf að vinna, sem mun leiða til vanlíðunar í starfi og óvissu um framtíðina.

Einn vinkill á hálfprestaþróuninni er síðan staða kynjanna. Nú á síðustu árum hefur konum fjölgað mjög í hópi guðfræðinga. Getur verið að fjölgun kvenna í prestastétt auðveldi og ýti undir hálfprestastörf?

(Skrifað í tengslum við Tillögu til þingsályktunar um skipan prestsþjónustunnar – pdf)

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.