Kristin þjóð og önnur trúarbrögð

Hér fyrir neðan er fræðsluerindi sem ég flutti á Sæludögum í Vatnaskógi sumarið 2014. Það er alltaf nokkrum vandkvæðum bundið að færa erindi sem er flutt munnlega inn á bloggið. Af þeim sökum hef ég lagað það örlítið, m.a. með tilliti til umræðu sem myndaðist að erindi loknu.

Ef við slítum í sundur siðinn, slítum við og í sundur friðinn.

Úrskurður Þorgeirs ljósvetningagoða fyrir 1015 árum hefur mótað íslenskan samfélagsskilning alla tíð síðan, jafnvel eftir að trúfrelsisákvæði kom með skýrum hætti með stjórnarskránni 1874 að tilstuðlan konungsins í Kaupmannahöfn.

Innleggið mitt í dag er skipt í nokkra hluta sem vonandi veita innsýn inn í nokkra af þeim þáttum sem vert er að velta fyrir sér þegar við tölum um „Kristna þjóð og önnur trúarbrögð.“

Eins og allir góðir guðfræðingar mun ég byrja í Gamla testamentinu, fjalla um spennu milli einangrunarsinna og fjölmenningarfólks í textum G.T., en fyrst og fremst hvaða mynd skrifara G.T. gera sér af Guði og hvernig sú mynd hefur áhrif á sýn þeirra á fjölmenningu.

Því næst skoða ég fjölhyggju og minnihlutastöðu hinna fyrstu kristnu, áður en ég lít mjög stuttlega á mikilvægi Konstantíns á 4. öld. Þessi sögulega yfirferð verður eðli máls samkvæmt fremur yfirborðskennd og mun hugsanlega skilja eftir fleiri spurningar en svör.

Þá mun ég horfa til hugmynda Islam um minnihlutahópa og hvernig staða Múhammeð sem leiðtoga meirihlutahreyfingar í fjölmenningarsamfélagi, fyrst í Medína og síðar Mekka, mótaði samskipti múslima og kristinna sér í lagi í miðausturlöndum fram á miðja 20. öld og jafnvel lengur.

Að þeirri yfirferð lokinni, fjalla ég um mikilvægi borgaratrúar (e. civil religion) í fjölmenningu á vesturhveli jarðar og hvernig borgaratrú og trúarbrögðin mætast og blandast á jákvæðan og stundum neikvæðan þátt.

Þegar umgjörðin hefur verið teiknuð upp mun ég beina umræðunni að íslenskum veruleika, m.a. í ljósi moskuumræðu og viðbragða við Vantrú og jafnvel Siðmennt.

Ég kem í umfjöllun minni ekki til með að tala mikið um mannréttindi í sjálfu sér. Ég ætla að forðast að ráðast harkalega á einstök stjórnmálaöfl. Markmiðið er að greina og útskýra umhverfi, aðstæður og ástæður. Hjá því verður þó varla komist þegar fjallað er um staðreyndir að opinbera hugsanlega heimsku og kjánaskap þeirra sem tala af fávisku og þekkingarleysi. Ég biðst fyrirfram velvirðingar á því ef það gerist.

Saga Ísraelsþjóðarinnar í Gamla testamentinu einkennist af fjölþættri þróun, samþættingu guðshugmynda og spennu milli Guðs nándarinnar (YHWH) og hins fjarlæga sköpunarguðs sem svífur yfir öllu (El(óhím)). Strax í fyrstu þremur köflum 1. Mósebókar kynnumst við þessum tveimur ólíku nálgunum að Guði.

Guð nándarinnar virðist eldri í sagnaminni Ísraelsþjóðarinnar og er oft og iðulega lýst sem Guði Ísraelsmanna einna. Hinir eiga aðra Guði og samskipti við aðra eru í einhverjum skilningi svik við Guð. YHWH er þannig eins og íslenska krónan í málflutningi Morgunblaðins. YHWH átrúnaður mótast enda í fjölgyðisheimi þar sem Guð og ætt eru nátengd.

YHWH verður þó með tímanum aðalguðinn og rennur saman við Elóhím sköpunarguðinn með skýrum hætti, og þegar lengra líður í sögu Ísraelsþjóðarinnar verður YHWH/Elóhím einn Guð. Svona þróun er þó langt í frá línuleg, og í Gamla testamentinu má sjá mismunandi hugmyndir um Guð og hina.

Hér er nauðsynlegt að hafa í huga að Ísraelsþjóðin er í gegnum allt þetta mjög smá og veik, umkringd stórveldum sem höfðu tilhneigingu til að valta yfir hana að vild. Hugsanlega má þó finna stuttan blómatíma sem er í Gamla testamentinu tengdur við Davíð konung.

Þegar við lítum til hinna fyrstu kristnu þá glímdu þeir við sama vanda. Fæðing, líf, krossdauði og upprisa Jesú tengdi með skýrum hætti Guð nándarinnar (YHWH) við Guð föður, sköpunarinnar. Guð var einn.

Spurning var hins vegar hvort hjálpræðisverk Jesú væri ætlað öllum eða einvörðungu Ísraelsmönnum.

Frásaga Lúkasarguðspjalls og Postulasögunnar lýsir fyrir Theophilusi (Guðsvini/um) á táknrænan hátt hvernig góðu fréttirnar um Jesú Krist, fara frá Galíleu, til Jerúsalem, þaðan til annarra landa fyrir botni Miðjarðarhafs og síðan áfram til endimarka jarðarinnar.

Jesús og YHWH eru skv. áherslu Lúkasar ekki lengur bundnir við einn hóp/eina ætt. Okkur er öllum boðið að vera með. Þegar sögu Nýja testamentisins lýkur er samt YHWH átrúnaður, átrúnaður minnihlutahóps. Textar N.T. snúast því eðlilega um rétt þeirra sem standa til hliðar við meirihlutann. Rétt þeirra sem veikt standa og þar má finna harða gagnrýni á meirihluta sem kúga og gera kröfu um aðlögun og hlýðni við vilja ráðandi stétta, s.b.r. texta Opinberunnarbókarinnar og gagnrýni guðspjallanna á musterið.

Þegar svo kristindómur mótast sem ríkisvernduð meirihlutatrúarbrögð í tíð Konstantínusar í kringum 350 e.Kr. þá kallar nýfengin staða á endurtúlkun ritningarinnar, enda komnar upp aðstæður sem NT er fullkomlega þögult um. Hér er freistandi að fletta upp sögunni um fátæku ekkjuna sem má m.a. finna í Mk 12 og sjá hvernig hægt er að lesa hana á tvennan hátt, annars vegar sem gagnrýni á valdastéttir og hins vegar sem tilraun til að réttlæta kúgun þeirra sem veikt standa.

Þróun í Islam er talsvert önnur en í kristindómnum, enda verða Islam ráðandi trúarbrögð í Medína og síðar Mekka á ritunartíma Kóransins. Þannig gerir Kóranin ráð fyrir því umhverfi að Islam séu ráðandi trúarbrögð og innleiðir hugmyndir um tvíþætt skattkerfi svo dæmi sé tekið, annars vegar trúartengdan skatt fyrir þá sem játa trú á Allah og hins vegar borgaralegan skatt á þá sem tilheyra ekki Islam. Í sjálfu sér ekki ósvipað íslenska skattkerfinu með sóknargjaldaviðbótinni, þar sem einstaklingar utan trúfélaga greiða vissulega sóknargjöld þó þau renni ekki til trúfélags heldur sem viðbótargreiðsla í ríkiskassann.

Munurinn er þó sá að dhimmi, skattur á þá sem ekki voru múslimar var á stundum lægri en trúarskatturinn, enda ekki nýttur til að greiða fyrir trúarlegt atferli.

Þetta fyrirkomulag var við lýði í íslömskum heimi vel fram á 20. öld víðast hvar. Í dag eru aðeins 3 ríki af rúmlega 50 þar sem Islam er í meirihlutastöðu sem leyfa ekki kristnar kirkjur og slíkt bann tók ekki að fullu gildi í neinu þeirra fyrr en á 20. öld, enda ríkin vart til fyrir þann tíma. Þetta bann er í nánum tengslum við uppgjör nýveldisstefnu Evrópubúa, en í sjálfstæðisbaráttu margra ríkja þar sem Islam er í meirihlutastöðu, varð kristni að táknmynd nýlendukúgaranna, jafnvel þó kristnu samfélögin þar væru mun eldri en kristni í Evrópu.

Þessi þróun er enn í gangi og ekki ósennilegt að fleiri ríki þar sem múslimar eru í meirihluta muni banna kirkjur á næstu árum, sbr. þróunina á einstökum svæðum í Írak.

[Viðbót: Ástandið í Írak magnast nú stöðugt og ljóst að umhverfi kristinna minnihlutahreyfinga er ömurlegt víða um þessar mundir.]

Útfærsla Islam sögulega á fjölmenningarsamfélaginu hefur byggt á hugmyndum um aðgreiningu trúarsamfélaga sem felur þá jafnframt í sér mismunandi skyldur og ábyrgð.

Rétt er að taka fram að hér er ég að tala um lögformlegan rétt kristinna til að iðka trú sína sem er vernduð í Kóraninum. Yngri trúarbrögð, t.d. Bahaí, sem eru sögð byggð á nýjum opinberunum hafa iðulega haft takmarkaðan rétt í Islam.

Hugmyndin um sameinandi borgaratrú (e. civil religion) er önnur útfærsla til lausnar á vanda fjölmenningarinnar og nátengd tilraun Þorgeirs ljósvetningagoða. Hlutverk borgaratrúarinnar er að skapa sið, tákn og atferli sem sameinar alla. Í Rómarríki til forna mátti trúa á hvað sem er, svo lengi sem þú tilbaðst líka keisarann (sem gyðingar og kristnir gátu ekki skrifað upp á, þannig að þá þurfti að kalla til ljónin).

[Viðbót: Þegar ég tala um borgaratrú byggi ég á trúarfélagsfræðilegum skilgreiningum á trúarhugtakinu sem skilgreina trú út frá hlutverki og atferli fremur en innihaldi. Nánari upplýsingar um skilgreiningar á trúarhugtakinu má fá á trú.is: http://tru.is/svor/2006/05/truadir_og_trulausir_menn.]

Á Íslandi hefur kirkjan verið þetta sameiningartákn, ásamt tungumálinu, ætterni, fánanum, Ríkisútvarpinu, Íslendingasögum og náttúrunni, auk óljósra hugmynda um sjálfstæði þjóðar sem á stundum hafa minnt á hugmyndir Bjarts í Sumarhúsum. Þá má nefna hugmyndina um Guð fjarlægðarinnar (sbr. þjóðsönginn og orð Geirs Haarde á hrundaginn).

Það er auðvelt að færa rök fyrir því að þjóðkirkjan sé einn helsti verndari borgaratrúar Íslendinga. Þannig er fáninn hafður í hávegum í kirkjum landsins, prestar hafa að embættisskyldu að ritskoða skírnarnöfn, sagan er dýrkuð og dáð og ætterni var um aldir haldið til haga í kirkjubókum.

Nýbúar finna sig enda á stundum óvelkomna í þjóðkirkjuna en leita fremur í frjálsu söfnuðina þar sem Guðsorðið er hreinna.

[Viðbót: Í umræðum eftir erindið var bent á að ástæður þess að nýbúar finna sig utan þjóðkirkju séu mun fjölbreyttari en sú að um íslenska kirkju sé að ræða. Ég get tekið undir það að hluta.]

Í fjölmenningu BNA hefur líka verið áhersla á sameinandi þætti. Táknin eru m.a. fáninn, þjóðsöngurinn, exceptionalism, hugmyndin um að allir geti make-að það, forsetinn, Hvíta húsið og Guð fjarlægðarinnar (El).

[Viðbót: Hér varð skemmtileg umræða um hlutverk íþróttakappleikja í að viðhalda og styrkja borgaratrúna í BNA. En rituöl í tengslum við íþróttakappleiki í BNA minna oft á helgihald trúfélaga.]

Þegar breytingar verða á samfélögum geta þær haft áhrif á þessa sameinandi borgaratrú. Viðbrögð við svörtum forseta í Hvíta húsinu er ágætt dæmi um þegar brestur verður í borgaratrúnni. Slíkar breytingar eru stundum kallaðar á fræðimáli, siðrof (e. anomie), þegar gildismat þjóðar gengur í gegnum óvissu, og rof myndast í hugmyndum um rétt og rangt, hefðir og venjur.

Slík breyting getur átt sér stað á margvíslegan hátt, t.d. með hægfara þróun (et.v. siðgliðnun), með lýðræðislegum breytingum (e.t.v. siðbót) eða með byltingu/hruni.

Á Íslandi höfum við séð ákveðin einkenni siðrofs Borgaratrúarinnar undanfarin ár (til dæmis í auknum styrk Siðmenntar/Vantrúar sem hafna sameinandi hlutverki kirkjunnar). Þó stendur þjóðkirkjustofnunin enn sterk, fáninn er heilagur, tungumálið er varið á mjólkurfernum og Íslendingabók er til sem FB-app.

[Viðbót: Hér er áhugavert að skoða ofsafengin viðbrögð við ákvörðun RÚV um að þróa dagskrá Rásar 1 og taka af dagskránni Orð kvöldsins og Morgunbænina.]

Þegar við veltum fyrir okkur spurningum um kristna þjóð og önnur trúarbrögð þá þurfum við að spyrja okkur hvað felst í hugtakinu kristin þjóð.

Auðvelda svarið væri að segja að sú þjóð sé kristin þar sem borgaratrúin byggist á kristnum trúarskilningi. Lúther leit reyndar svo á að samfélög sem byggðu á náðarboðskap kristni virkuðu ekki, samfélög þyrftu að byggja á lögmálinu til að virka. Því væri góður ókristinn þjóðhöfðingi betri kostur en slakur kristinn þjóðhöfðingi. Fagnaðarerindi kristninnar tilheyrði einstaklingum og fjölskyldum ekki ríkjum eða þjóðum. Svipaðar hugmyndir má finna hjá guðfræðingum eins og Reinhold Niebuhr í Bandaríkjunum sem er einmitt uppáhaldsguðfræðingur Obama. Ef Lúther, Niebuhr og Obama hafa rétt fyrir sér þá getur ekkert verið til sem heitir kristin þjóð.

[Viðbót: Hér kom spurning úr sal um hvers vegna við boðuðum trú, ef sá skilningur er réttur að náðarhugtakið sé vonlaust þegar kemur að stjórnun þjóða. Viðbrögð mín voru á þá leið að ef Niebuhr, Obama og Lúther hafa rétt fyrir sér, þá hafi náðarhugtakið a.m.k. gildi í samskiptum einstaklinga og smærri hópa, s.s. í fjölskyldum.]

En gefum okkur að kristin þjóð sé þjóð þar sem hugmyndir um náð, fyrirgefningu og nýtt upphaf móti samfélagsgerðina. Ímyndum okkur um stund að jöfnuður Páls postula ráði ríkjum í samskiptum milli fólks. Hvernig myndi þá kristin þjóð mæta hinum. Gerum okkur í hugarlund ef gagnrýni Jesú á meirihlutavald trúarstofnanna samtíma síns myndi beinast að þjóðkirkjunni.

Nú eða ef samskipti Jesú við rómverska hundraðshöfðingjann, konuna við brunninn eða dæmisagan ómögulega um miskunnsama samverjann væri módelið að því hvernig við nálgum aðra, hvað gerðum við þá.

Ef við létum kærleika Krists trompa ættartré, tungumál og upplýstar sveitakirkjur við þjóðveginn. Hvað myndi gerast?

Borgaratrúin íslenska hefur ýmsa útilokandi þætti sem seint verða eignaðir Kristi, þætti sem eru ekki neikvæðir í sjálfu sér en eru því miður samofnir kristindómnum og bjaga þannig náðarverk Krists öllum til handa. Þannig verða ætternið og tungan, okkar umskurður og fórnarkjötsbann. Það er nefnilega mikilvægt að við áttum okkur á að við erum ekki kristin þjóð, heldur íslensk þjóð.

Það er íslensk þjóð sem kallar eftir aldursgreiningu á tönnum flóttamanna og ákveðinni þekkingu á beygingarkerfi nafnorða til að ríkisborgararéttur sé samþykktur.

Kristin þjóð myndi segja:

Komið til mín allir sem erfiði hafið og þungar byrðar og ég mun veita ykkur hvíld.

Spurningar okkar um framtíðina lúta að því hvernig við horfum á okkur sjálf.

  • Viljum við sameinandi borgaratrú eða lifa í aðgreindu fjölmenningarsamfélagi líkt og má sjá í Islam?
  • Hvar erum við til í að hafa lægsta samnefnara sameinandi borgaratrúar?
  • Hvað gerum við gagnvart þeim sem ekki taka undir sameinandi þætti? Köllum við til ljónin?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.