Smáþankar um starfsfólk og kynjaskiptar sumarbúðir

Eitt af því sem hefur um áratugaskeið verið eitt helsta einkenni Vatnaskógar sem uppeldismiðstöðvar er að því sem næst allir starfsmenn sem koma með beinum hætti að uppeldi drengjanna á staðnum eru karlkyns. Það tækifæri sem ungir menn hafa í Vatnaskógi til að vinna sem uppalendur er ómetanlegt ekki aðeins fyrir einstaklingana sem hafa sinnt þessum störfum heldur ekki síður samfélagið í heild. Fjöldi ungra karla sem hafa fengið tækifæri til að starfa í sumarbúðum KFUM og KFUK hafa síðar farið í nám á sviði uppeldis- og samfélagsfræða sem hafa stundum á síðustu árum verið kallaðar „kvennagreinar“.

Þannig hafa fjölmargir karlkyns sumarbúðastarfsmenn gert kennslu að köllun sinni og eins hafa á allra síðustu árum nokkrir karlar lagt fyrir sig félagsráðgjöf í kjölfar starfa sinna í sumarbúðum félagsins.

Umræður um gildi og gagnsemi þess að vera með kynjaskiptar sumarbúðir koma reglubundið upp í starfi KFUM og KFUK og sýnist sitt hverjum. Þegar við erum vonandi öll að verða betur meðvituð um að kynvitund er ekki alltaf bundin við lífræðilegt kyn og sjálfsskilningur okkar er fjölbreyttari en svo að hann rúmist í tvívíðum heimi þá er umræðan um margt mikilvægari en áður.

Ýmsar rannsóknir benda til þess að stúlkur nái betri árangri í kynjaskiptum skólum (1) og nái að njóta sín betur. Á hinn bóginn sína rannsóknir á leikskólum jafnframt að þroski drengja hagnast af nærveru stúlkna (2). Þrátt fyrir að þessar rannsóknir einblíni á skólaumhverfi, þá er ástæða til að gefa þeim gaum. En um leið og ég tel að þessar rannsóknir styrki rök fyrir kynjaskiptu starfi fyrir stúlkur, þá tel ég gildi þess að drengir eignist karlkyns fyrirmyndir sem sinna uppeldisstörfum eins og raunin er á í Vatnaskógi, vegi upp á móti þeim hugsanlegu göllum sem bent er í rannsóknunum sem er vísað til hér að ofan.

Stærsta spurningin sem við hins vegar munum þurfa að glíma við á næstu árum snýst um hvernig við í sumarstarfi KFUM og KFUK munum takast á við og koma til móts við einstaklinga sem passa ekki inn í þann ramma sem við störfum í um þessar mundir, eða með öðrum orðum. Hvernig tekst okkur að uppfylla þann sjálfskilning og trúarskilning okkar að:

Þér eruð allir Guðs börn fyrir trúna á Krist Jesú. Allir þér, sem eruð skírðir til samfélags við Krist, þér hafið íklæðst Kristi. Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú. (Gal 3.26-28)

(1) Wong, K., Lam, Y. R. og Ho, L. (2002). The effects of schooling on gender differences. British Educational Research Journal, 827-843.

(2) Moller, A. C., Forbes-Jones, E., Hightower, A. D. og Friedman, R. (2008). The developmental influence of sex composition in preschool classrooms: Boys fare worse in preschool classrooms with more boys. Early Childhood Research Quarterly, 409-418.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.